Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5., 6. og 7. bekk í grunnskóla. Undirbúningur í skólum landsins fer fram samhliða skólaárinu. NKG hefst á haustin og lýkur á vorin með vinnusmiðju þar sem þátttakendur í úrslitum fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar frekar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.

Í ár bárust keppninni um það bil 2000 hugmyndir frá yfir 3000 þátttakendum um allt land en eftir að matsnefnd lauk störfum var 54 nemendum boðið að taka þátt í vinnusmiðju sem fór fram í Reykjavík dagana 28. – 30. maí og lokahóf var síðan haldið í gær, 31. maí.

Flúðaskóli hefur tekið þátt í þessari keppni undanfarin ár undir dyggri stjórn Kristínar Erlu nýsköpunarkennara og hafa nemendur skólans oftar en einu sinni komist í úrslit. Þetta árið komust tveir nemendur skólans í úrslit, þær Margrét Lilja Thorsteinsson, 7. bekk og Sonja Ýr Benediktsdóttir 5. bekk. Þær stóðu sig báðar mjög vel og hlaut Sonja Ýr þriðja sætið í sínum aldurshópi.

 

Hér má sjá myndir og fréttir frá vinnusmiðjunni og verðlaunaafhendingunni.