Jólaskreytingar, heitt súkkulaði, piparkökur, dagur íslenskrar tónlistar, samsöngur og gleði.

Í dag var sannarlega skemmtileg vinna í Flúðaskóla. Herlegheitin hófust utan dyra en þeir Ævar og Sorin bjuggu til heitt súkkulaði með þeyttum rjóma sem nemendur gæddu sér á og laumuðu upp í sig einni og einni piparköku í leiðinni.
 
Því næst var haldið í Kvíadal, samkomusal skólans, hvar degi íslenskrar tónlistar var gerð góð skil. Að þessu sinni var gerð tilraun til að slá Íslandsmet í samsöng. Ljóð Olgu Guðrúnar Árnadóttur við lag Ólafs Hauks Símonarsonar, ,,Það vantar spýtur" hefur ómað innan veggja Flúðaskóla síðustu daga. Okkar eina sanna Kaisu tónlistarkennari hélt vel utan um að kenna og æfa 1.-5. bekk sem leiddi sönginn. Það var hljómsveitin Celebs frá Suðureyri sem flutti lagið beint úr Hörpu og fylgdust okkar nemendur með og tóku vel undir sönginn ásamt starfsfólki skólans.
 
Því næst var stöðvavinna tengd jólaskreytingum. Þar unnu allir nemendur skólans í aldursblönduðum hópum á stöðvum sem starfsfólk hafði undirbúið. Á stöðvunum ómaði jólatónlist undir þar sem brosmildir nemendur lögðu sig fram í vinnu og sérstaklega var gaman að sjá þau eldri aðstoða yngri nemendur. Vinna sem þessi er alltaf hvetjandi og skemtileg og sérstaklega var gaman að heyra einn nemanda segja við annan að þetta væri sennilega skemmtilegasti dagur lífs hans!

 

Myndir frá deginum: https://www.facebook.com/media/set?vanity=100054633330993&set=a.901730511658052